Fjöldi aflýstra flugferða kemur Isavia ekki á óvart og er í takt við væntingar fyrirtækisins í kjölfar breyttra sóttvarnareglna á landamærum. Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur Icelandair aflýst meirihluta flugferða félagsins til og frá landinu í dag og á morgun.
„Þetta kemur okkur hjá Isavia ekki á óvart. Þetta er í takt við okkar væntingar. Það hafa reyndar fleiri flugfélög aflýst ferðum eins og áður hefur komið fram,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.
Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sagði í samtali við mbl.is í morgun að með því að aflýsa flugferðum sé flugfélagið að bregðast við breyttum sóttvarnareglum á landamærunum.
Frá miðjum síðasta mánuði hafa allir sem til landsins koma þurft að fara í tvöfalda skimun fyrir kórónuveirunni með 5 daga sóttkví þar á milli. Það hefur orðið til þess að mun færri koma hingað til lands en áður.
Isavia sagði upp 133 starfsmönnum í síðustu viku og sagði Fríhöfnin, dótturfélag Isavia, upp 62 starfsmönnum á mánudag.