Meirihluta flugferða Icelandair aflýst

Icelandair hefur aflýst meirihluta flugferða félagsins til og frá landinu í dag og á morgun. Ásdís Ýr Pét­urs­dótt­ir, upp­lýs­inga­full­trúi Icelanda­ir, segir að með þessu sé flugfélagið að bregðast við breyttum sóttvarnareglum á landamærunum.

Tvær flugvélar Icelandair fóru frá Íslandi í dag, önnur til Amsterdam og hin til Kaupmannahafnar. Á áætlun er flug til Boston síðdegis á vegum Icelandair. Auk Icelandair hefur SAS aflýst flugi til Kaupmannahafnar í dag og Europe Airpost flugi til Parísar.

Alls eru 8 flug á áætlun frá Keflavíkurflugvelli í dag. Á morgun eru tíu flugferðir á áætlun frá Íslandi og af þeim er ein á vegum Icelandair. Það flug er til Kaupmannahafnar.

„Við erum að draga saman eins og ljóst var að yrði gert þegar ferðatakmarkanir voru settar á. Það tekur tíma að raungerast og fyrstu dagana var talsverður fjöldi farþega að fara frá landinu og þá vorum við kannski að fara með fullar vélar frá landinu en hálftómar heim. En núna er þetta að jafnast út þar sem það eru afar fáir að koma og fara frá landinu. Við erum að laga framboðið að því,“ segir Ásdís.

Hún segir að þessi áætlun nái aðeins stutt fram í tímann því reynslan sýni að hlutirnir geta breyst hratt. 

„Við verðum að vera sveigjanleg og nýta þau tækifæri sem eru,“ segir Ásdís. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka