„Mun meira hefði þurft til“

Frá kynningarfundi hjúkrunarfræðinga í júní.
Frá kynningarfundi hjúkrunarfræðinga í júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga telur niðurstöðu gerðardóms mikil vonbrigði. Hún taki ekki mið af ýmsum rökum sem fram komi í greinargerð dómsins, sem nýta hefði mátt til þess að bæta launasetningu hjúkrunarfræðinga og hækka umtalsvert laun þessarar mikilvægu kvennastéttar innan heilbrigðiskerfisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Gerðardómurinn úrskurðaði í gær að ríkið skuli leggja Land­spít­al­an­um til aukna fjár­muni sem ráðstafa á til að bæta kjör hjúkr­un­ar­fræðinga á grund­velli stofn­ana­samn­ings, alls 900 millj­ón­ir króna á ári frá 1. sept­em­ber 2020 til loka gild­is­tíma kjara­samn­ings aðila. Í þess­ari fjár­hæð felst heild­ar­viðbótar­fram­lag til spít­al­ans að meðtöld­um launa­tengd­um gjöld­um. 

Þá skal ríkið á sama hátt leggja öðrum heil­brigðis­stofn­un­um sín­um sem hafa al­menna hjúkr­un­ar­fræðinga í þjón­ustu sinni til aukna fjár­muni sem skal ráðstafað á grund­velli stofn­ana­samn­inga. Alls skal til viðbót­ar nú­ver­andi fjár­veit­ing­um leggja stofn­un­um til sem nem­ur 200 millj­ón­um króna á ári frá 1. sept­em­ber 2020 til loka gild­is­tíma kjara­samn­ings aðila.

Vanmetin kvennastétt

„Í greinargerð gerðardóms kemur meðal annars fram að vísbendingar séu um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt þegar kemur að launasetningu. Sömuleiðis að ekki sé verið að greiða hjúkrunarfræðingum laun í samræmi við ábyrgð í starfi.

Niðurstaða gerðardóms er að ríkið veiti heilbrigðisstofnunum sem hjúkrunarfræðingar starfa á fjármagn til endurskoðunar á stofnanasamningum hjúkrunarfræðinga,“ segir í tilkynningu félagsins.

Útfærsla á niðurstöðu gerðadóms sé nú í höndum stjórnenda heilbrigðisstofnana í samvinnu við Fíh með útfærslu innan stofnanasamninga. Mikilvægt sé að sú vinna gangi fljótt og örugglega.

Fjárhæðin dugi ekki til að leiðrétta launin

„Með þessu hefur gerðardómur ýtt verkefninu til baka í nærumhverfið á stofnunum. Rúmlega einn milljarður, sem er fjárhæð með launatengdum gjöldum, mun deilast á nærri 2.700 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu.

Fjárhæðin dugir ekki til þess að leiðrétta laun vanmetinnar kvennastéttar til samræmis við aðrar viðmiðunarstéttir eða tryggja að hjúkrunarfræðingar fái laun í samræmi við ábyrgð í starfi.

Stór hluti af fjármagninu er auk þess þegar bundinn í að tryggja þau sértæku úrræði sem  einstaka stofnanir hafa gripið til síðustu ár.

Mun meira hefði þurft til og harmar stjórn Fíh að gerðardómur hafi ekki stigið það mikilvæga skref að leiðrétta laun hjúkrunarfræðinga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka