Rannsókn á eldsvoða sem varð við Bræðraborgarstíg í júlí miðar vel, að sögn Margeirs Sveinssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns.
„Enn er verið að bíða niðurstaðna ýmissa rannsókna sem fram hafa farið vegna þessa máls,“ segir Margeir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.
Karlmaður á sjötugsaldri hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan bruninn varð og var í ágúst úrskurðaður af dómstólum í áframhaldandi gæsluvarðhald fram til 8. september en gæsluvarðhaldsins var óskað á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Þrír létust í brunanum og er málið rannsakað sem manndráp af ásetningi. Sá sem situr í gæsluvarðhaldi gæti því átt yfir höfði sér ævilanga fangelsisvist.