Allar björgunarsveitir í Árnessýslu voru kallaðar út í gærkvöldi vegna karlmanns á þrítugsaldri sem hafði sokkið í sand við Sandvatn á Haukadalsheiði við Langjökul. Björgunarsveitarmenn á björgunarbátum og sæþotum fundu manninn.
Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að um 30 björgunarsveitarmenn hafi unnið að útkallinu í nótt.
„Þau fóru þarna upp eftir á jeppum, bátum og sæþotum. Það tók smá tíma að staðsetja manninn, en björgunarbátar og fólk á sæþotum komu svo að honum, svolítið norðarlega við vatnið, og voru hjá honum. Þau unnu svo að því að losa hann þegar þyrla með lækni um borð var komin,“ segir Davíð.
Maðurinn sat fastur í sandinum í um fimm klukkustundir og náði sandurinn honum upp að mitti þegar björgunarsveitarmenn bar að. Þurfti því að bíða eftir að þyrla Landhelgisgæslunnar kæmi á svæðið svo hægt væri að losa manninn í samráði við lækni um borð.
„Það þurfti að vanda sig við að losa hann því hann hafði setið fastur í sandinum í dálítinn tíma. Hann var orðinn kaldur og blautur og svo hefur það einhverjar afleiðingar að vera fastur svona lengi, sem læknar þurfa að skoða. Það sem vakti fyrir okkar fólki, í samráði við lækninn í þyrlunni og sjúkraflutningamenn, var að vinna í því að losa hann svo það yrði gert á sem bestan hátt fyrir hann,“ segir Davíð.