„Ég neitaði að fara á gjörgæslu eða eitthvað lengra,“ segir Steinar Friðgeirsson, 73 ára verkfræðingur sem veiktist af kórónuveirunni og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús af hennar völdum á dögunum.
Við innlögn var hann með víruslungnabólgu báðum megin sem og fullt af smáum blóðtöppum í lungunum. Hann var settur á blóðþynningarlyf, á víruslyfið Remdesivir og á sterka stera til að hjálpa ónæmiskerfi líkamans. Steinar var sá síðasti sem legið hefur á spítala í seinni bylgju kórónuveirufaraldursins. Fyrirsögnin að ofan vísar til frétta af sjúkrahúsvist Steinars, þegar daglega kom fram að einn maður á áttræðisaldri lægi inni á spítala af völdum veirunnar.
Steinar ber sig vel í dag. Hann losnaði úr einangrun í byrjun vikunnar og bíður þess að Anna kona hans, sú eina sem smitaðist af hans völdum, ljúki sinni einangrun. Sem betur fer veiktist hún ekki eins illa og Steinar sem lést hefur um tíu kíló síðan hann kenndi sér fyrst meins fyrir fjórum vikum. „Þetta er þó ekki megrun sem ég mæli með,“ segir Steinar m.a. í viðtali í Morgunblaðinu í dag.