Ný strætóleið verður tekin í notkun á sunnudag. Leiðin, sem ber númerið 22, mun þá hefja akstur á milli Urriðaholts og Ásgarðs í Garðabæ. Leiðin verður ekin samkvæmt nokkuð óhefðbundnu sniði, eins og fram kemur í tilkynningu Strætó.
Í stað hefðbundinna strætisvagna mun átján manna smárúta aka leiðina á annatímum á virkum dögum. Utan annatíma og um helgar verður leiðin í svokallaðri pöntunarþjónustu.
Í henni felst að viðskiptavinir geta hringt í Hreyfil í síma 588-5522 og pantað ferð, að minnsta kosti 30 mínútum fyrir brottför samkvæmt tímaáætlun. Greitt er þá fyrir farið með Strætókorti, -appinu eða með skiptimiða.
Biðstöðvar verða fjórar í Urriðaholti. Við Náttúrufræðistofnun Íslands verða tvær stöðvar þar sem strætóinn fer inn og út úr hverfinu og einnig verða biðstöðvar við Holtsveg, Urriðaholtsskóla og Urriðaholtsstræti.
Urriðaholt er eitt nýjasta hverfi Garðabæjar. Hátt í 2.500 manns búa nú í hverfinu og gert er ráð fyrir allt að 4.500 íbúum í Urriðaholti þegar það verður fullbyggt, að því er segir í tilkynningu Strætó.
„Í skipulagi Urriðaholts er gert ráð fyrir að Strætó aki hring um Urriðaholtið og hefur það verið í skoðun um tíma með hvaða hætti best væri að útfæra þjónustu almenningssamgangna í hverfinu.“