Velferðarnefnd Alþingis leggur til að hlutabótaleiðin verði framlengd til áramóta og að tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta verði lengt úr allt að þremur mánuðum í allt að sex mánuði.
Þetta kemur fram í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins.
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðarsjóð launa. Breytingarnar fela í sér framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til launamanna samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem og framlengingu á heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga vegna verulegs samdráttar í rekstri.
Fram kemur í álitinu að samhljómur hafi verið á meðal umsagnaraðila um ágæti úrræðisins til að mæta efnahafslegum áhrifum kórónuveirufaraldursins, en upphaflega stóð til að framlengja úrræðið til 31. október.
Þó hafi komið fram þau sjónarmið að tryggja þyrfti fyrirsjáanleika á vinnumarkaði á meðan efnahagslegra áhrifa faraldursins gætir, og því mikilvægt að úrræðið væri framlengt til lengri tíma.
Einnig eru lagðar fram breytingar á lögum svo hægt verði að stunda nám sem samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur, og að tímabil samkvæmt lögum um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda verði framlengt til ársloka 2021.
Ekki er gert ráð fyrir því að breytingarnar sem lagðar eru fram í frumvarpinu verði til frambúðar.
Þingflokkur Samfylkingarinnar leggur til fjórar breytingar á frumvarpi félagsmálaráðherra, umfram nefndarálit velferðarnefndar. Þó er fagnað breytingum sem fram koma á frumvarpinu, svo sem framlengingu hlutabótaleiðar, lengingu tekjutengingar atvinnuleysisbóta, hvatningu til náms.
Þó bendir annar minnihluti velferðarnefndar á að tímasetningar frumvarpsins og boðaðar framlengingar séu ófullnægjandi.
Leggur Samfylkingin til að hlutabótaleiðin verði lengd til 1 júní 2021, og hvetur einnig til þess að tekjutengt tímabil atvinnuleysisbóta verði lengt enn frekar, vegna þeirra gríðarlegu afleiðinga sem faraldurinn hefur haft i för með sér.
Einnig er lagt fram sú tillaga að heimild til greiðslu launa í sóttkví nái einnig til þeirra tilvika þegar foreldrar geti ekki sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiða til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns undir 18 ára aldri.