Frumvarp um hlutdeildarlán var samþykkt á Alþingi í kvöld. Markmið lánanna er að auðvelda tekju- og eignalitlum einstaklingum að eignast sína fyrstu fasteign og er hluti af yfirlýsingu um stuðning stjórnvalda við lífskjarasamninginn. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, segir um „gríðarlega stórt og róttækt skref“ að ræða.
Hlutdeildaránin munu brúa bilið á milli lána veittum af fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum annars vegar og kaupverðs hins vegar. Hlutdeildarlánin eru að skoskri fyrirmynd og hefur þessi leið reynst vel þar í landi.
„Þarna erum við að stíga gríðarlega stórt og róttækt skref. Hlutdeildarlánin eru róttæk aðgerð sem kemur til móts við fyrstu kaupendur, tekjulága og þá sem misstu eignir sínar í efnahagshruninu.“
Eins og gefur að skilja verður auðveldara fyrir hópa sem áður hafa átt erfitt með að fá húsnæðislán að fá slík lán með tilkomu hlutdeildarlána. Spurður hvort afleiðing þessa verði ekki til þess að húsnæðisverð hækki segir Ásmundur svo ekki vera því samhliða hlutdeildarlánunum verði stuðlað að auknu framboði húsnæðis fyrir þá sem taka hlutdeildarlán.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) mun þannig óska eftir samstarfi við byggingarverktaka sem séu að byggja nýjar eignir. Vilji þeir samstarf við HMS sækja verktakarnir um hlutdeildarlánavottun. Til þess að fá slíka vottun þurfa verktakar að byggja íbúðir sem séu undir ákveðinni stærð og ákveðnu verði. Þegar íbúðirnar hafa verið byggðar geta þeir sem eiga rétt á hlutdeildarlánum fest kaup á slíkum eignum.
„Heilt yfir er þetta úrræði sem mun bæði stuðla að því að ungt og tekjulágt fólk muni fá aukinn stuðning en líka stuðla að auknu húsnæðisframboði,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is.
Hlutdeildarlánin verða ólík hefðbundnum fasteignalánum að því leyti að ríkið lánar tekjulágum fyrstu kaupendum ákveðið hlutfall af verði þess íbúðarhúsnæðis sem þeir hyggjast kaupa. Hlutdeildarlánin bera enga vexti né afborganir á lánstímanum.
„Á næstunni munum við setja allt á fullt til þess að kynna hlutdeildarlánin,“ segir Ásmundur.