Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar unnu við óvenjulegar aðstæður við merkingar á humri á Jökuldýpi nýverið.
Til að vernda augu humarsins og sjón, sem er vanur lítilli birtu á 100-300 metra dýpi, voru ljós slökkt um borð í rannsóknaskipinu og unnið við dauf rauð vinnuljós. Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, segir þessa vinnu um miðja nótt hafa minnt á það sem gerist í vísindakvikmyndum.
Lítil hljóðmerki voru límd á bakskjöld 32 humra og senda þau upplýsingar í hljóðdufl. Merkin eiga að gefa upplýsingar um staðsetningu, ferðir og háttalag humarsins, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar merkingar á humar í Morgunblaðinu í dag.