Sjö tillögur Viðreisnar í efnahagsmálum

Frá fundinum í morgun þar sem Viðreisn kynnti áform sín.
Frá fundinum í morgun þar sem Viðreisn kynnti áform sín. mbl.is/Árni Sæberg

„Stóra verkefni stjórnvalda er að brúa bilið, taka utan um fólkið okkar og fyrirtæki á þessum tíma – ekki fram í tímann heldur núna, til að kreppan verði ekki langvarandi,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar á blaðamannafundi í morgun. Þar lýstu hún og Jón Steindór Valdimarsson þeim verkefnum og aðgerðum sem brýnt er að stjórnvöld ráðist strax í til að mæta vanda fólks og fyrirtækja í landinu.

Þau sögðu ljóst að ríkisstjórnin hefði enga áætlun til að mæta samdrættinum í landinu vegna kórónuveirufaraldursins og á þessum tímapunkti væri það þjóðinni afar dýrkeypt að draga lappirnar, að því er segir í tilkynningu. 

Bregðast þurfi við yfirstandandi samdrætti með afgerandi og markvissum aðgerðum. Útlit er fyrir að niðursveiflan verði tímabundin og skammvinn, miðað við grunnspá Seðlabanka Íslands.

Því verður meginþungi aðgerða stjórnvalda að miðast við þann veruleika, að ráðist verði í afgerandi aðgerðir strax til að brúa bilið fyrir fólk og fyrirtæki í landinu sem ástandið bitnar mest á. Þorgerður og Jón Steindór bentu á að það dugi lítið að dreifa aðgerðum á árin 2022 eða 2023. Tillögur Viðreisnar eru sjö talsins og miða að því að draga úr neikvæðum áhrifum samdráttarins á líf og lífsviðurværi almennings.

Sjö tillögur Viðreisnar:

• Flýtum og aukum opinberar framkvæmdir.
• Aukum hvata í loftslagsmálum.
• Bregðumst við auknu atvinnuleysi með tímabundnum úrræðum fyrir fólk í atvinnuleit.
• Fjárfestum í lýðheilsu þjóðar.
• Léttum álögur á fyrirtæki.
• Verjum störf.
• Eflum nýsköpun til framtíðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert