Tilboð í uppsteypu og fullnaðarfrágang skrifstofubyggingar Alþingis voru opnuð í dag. Fjögur tilboð bárust, en útboð var gert á EES-svæðinu. Mjótt var á mununum á milli bjóðenda, en ÞG verktakar buðu lægst í bæði verkin.
Útboðið var auglýst í lok júní, gögn afhent 1. júlí og skiluðu fjögur verktakafyrirtæki inn tilboðum, að því er segir í tilkynningu frá Framkvæmdasýslu ríkisins.
Kostnaðaráætlun FSR hljóðar upp á rúma 3,2 milljarða króna.
Útboðið tók til framkvæmda við jarðvinnu, uppsteypu og fullnaðar- og lóðarfrágangs hússins. Hönnun þess byggist á samkeppnistillögu Studio Granda sem hlaut 1. verðlaun í samkeppni um hönnun hússins. Aðilar hönnunarteymis eru Studio Granda og EFLA.
Byggingin verður skrifstofu- og þjónustuhús Alþingis og mun standa við horn Tjarnargötu og Vonarstrætis. Fyrirhuguð nýbygging (grunnhús á fjórum hæðum ásamt 5. hæð og kjallara) er um 6.362 m2 að stærð og þar af er bílakjallari um 1.300 m2.
Tilboðin verða tekin til skoðunar hjá FSR.