Þróun ofbeldisbrota meðal ungmenna áhyggjuefni

mbl.is/Hari

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur fengið 15 milljóna króna styrk sem ætlað er að hjálpa embættinu að sinna auknum forvörnum og stuðningi við börn í viðkvæmri stöðu til að draga úr líkum á ofbeldisbrotum þeirra. Lögreglan hefur haft verulegar áhyggjur af þróun ofbeldisbrota meðal ungmenna.  

Styrkurinn er liður í vinnu aðgerðateymis skipuðu af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í þeim tilgangi að stýra og samræma vinnu við útfærslu aðgerða gegn ofbeldi á tímum efnahagsþrenginga og áfalla. Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins

Þar segir, að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi lýst yfir áhyggjum af áhrifum Covid-19 á líðan barna. Breytingar á skólahaldi höfðu án efa mest áhrif á viðkvæmustu hópa barna og fram undan sé aukin áhætta sem tengist því félagslega álagi sem atvinnuleysi geti haft á fjölskyldulíf.

Íslensk ungmenni upplifi frekar ofbeldi en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum

„Í því sambandi hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft verulegar áhyggjur af þróun ofbeldisbrota meðal ungmenna, vegna ofbeldismyndbanda sem ungmenni eru að taka upp og deila á sérstökum vefsvæðum og hins vegar málum þar sem hnífar koma við sögu. Þá sýnir nýleg rannsókn að íslensk ungmenni upplifi frekar ofbeldi en jafnaldrar þeirra í öðrum löndum.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, við undirritun á styrknum í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Til að bregðast við þessu hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu unnið að sérverkefni í vor og sumar þar sem horft er til þess að taka betur utan um börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu. Teymi þriggja lögreglumanna hefur sinnt verkefninu auk þess sem ákærendur, starfsmenn miðlægrar rannsóknadeildar og stjórnendur í almennri löggæslu og stoðþjónustu styðja við verkefnið,“ segir í tilkynningunni. 

Verkefnið er þrískipt:

  1. Rannsaka brot ósakhæfra barna og ungmenna í samræmi við fyrirmæli ríkissaksóknara 9/2009.
  2. Að efla samstarf við aðrar stofnanir um forvarnir gegn afbrotum þ.m.t. heilsugæslu, grunn- og framhaldsskóla, tómstunda- og íþróttastarf sveitarfélaga, félagsþjónustu og barnavernd.
  3. Almenn vitundarvakning um þróun ofbeldis og ofbeldismenningu meðal íslenskra   ungmenna í samstarfi við hagaðila og ungmennin sjálf m.a. með því að vinna með   Hinu húsinu og hópnum Ungmenni gegn ofbeldi.

Ungmenn í viðkvæmri stöðu líklegri til að sæta vanrækslu

„Við vitum að þau börn og unglingar sem eru í viðkvæmri stöðu eru líklegri til þess að sæta vanrækslu, félagslegri útilokun, neyta fíkniefna eða verða fyrir ofbeldi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19-faraldurinn hefur haft á daglegt líf. Reynsla af faröldrum síðustu áratuga sýnir að börn eru í aukinni hættu á að sæta ýmiss konar vanrækslu og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að við stígum þar inn og tökum betur utan um þessa hópa,“ segir félagsmálaráðherra í tilkynningunni. 

„Markmiðið með þessu verkefni er að hægt verði að grípa tímanlega inn í líf ungs fólks og beina því á rétta braut. Það felast mikill verðmæti í því að koma í veg fyrir að ungt fólk lendi á glapstigum. Samvinna lögreglu og þeirra sem vinna uppbyggilegt félags-, mennta- og tómstundastarf með ungmennum er mikilvægt og forvarnir og upplýsingagjöf til barna og ungmenna lykilatriði til að tryggja velferð og öryggi barna,“ segir dómsmálaráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert