Tíminn vinnur með meininu, ekki lífinu

„Ég er búin að láta tattóvera augnabrúnirnar, áður en ég …
„Ég er búin að láta tattóvera augnabrúnirnar, áður en ég missi þær og svo er ég líka búin að kaupa mér húfu,“ segir Unnur.

Unnur G. Kristjánsdóttir beið alls í fimm mánuði frá því að einkenni um krabbamein í legi komu í ljós hjá henni og þar til hún fékk loks ótvíræða staðfestingu á því að það væri búið að dreifa sér. Hún segist hugsa til þess hvort krabbameinið hefði dreift sér minna ef hún hefði ekki þurft að bíða svo lengi, hvort þennan langa biðtíma megi skýra með álagi á heilbrigðiskerfið vegna kórónuveirunnar eða hvort það hafi eitthvað með aldur hennar að gera.

Í mars síðastliðnum komu í ljós einkenni hjá Unni sem bentu til krabbameins í legi. Þá fór hún til kvensjúkdómalæknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og fór þar í gegnum rannsókn sem gat ekki útilokað að um krabbamein væri að ræða. Henni var þá vísað til kvennadeildar Landspítalans en komst ekki að í frekari rannsóknir og viðtal fyrr en 6. maí. Í byrjun júní fékk hún tilkynningu um að hún ætti að fara í útskröpun 19. júní þar sem ekki væri hægt að finna krabbamein í legi öðruvísi með öruggum hætti.

Unnur fór svo ekki í legnám fyrr en 6. ágúst en þá var endanlega hægt að segja til um það hvort krabbameinið hefði dreift sér, sem það hafði gert í tilfelli Unnar. 

„Auðvitað bítur þetta í hælinn á þér alla daga

Unnur segir að kvensjúkdómalæknirinn hennar hafi sífellt ýtt á eftir því að Unnur fengi að fara í rannsóknir. 

„Ég veit náttúrlega ekkert hvort þetta er algengt en ég ímynda mér, vegna þess að það var til staðar rökstuddur grunur um krabbamein, að þá sé þetta alveg ofboðslega langur tími vegna þess að krabbameinið dreifir sér,“ segir Unnur í samtali við mbl.is. 

Læknarnir sem hafa annast hana hafa gert það vel og hefur hún ekkert út á þá að setja, einungis á kerfið sem virðist ekki hafa starfað eins og það ætti að gera í hennar tilfelli. 

Spurð hvort biðin hafi verið henni erfið segir Unnur:

„Auðvitað bítur þetta í hælinn á þér alla daga en ég er brött manneskja, seig og dugleg og lifi góðu lífi. Ég er svona lífsglöð og lífsþyrst manneskja svo það vann með mér en ég var hérna heima frá því í byrjun mars og þangað til 1. maí. Þá fór ég í vinnuna í eina viku og svo hef ég verið hérna heima.“

Hugsar um allt fólkið sem fer illa út úr biðinni

Unnur er 65 ára gömul og starfar sem grunnskólakennari. Skólastjórinn í skólanum þar sem hún starfar leit svo á að hún væri of slöpp til að vera í vinnunni. Smit kórónuveiru kom upp í skólanum sem Unnur starfar í og segir Unnur best að taka „enga sénsa“ á tímum kórónuveirunnar. 

„Ef ég kemst upp þessa brekku er mér svo sem alveg sama um að hafa þurft að fara í gegnum þetta en svona á kerfið ekki að starfa. Ég hugsa um allt það fólk sem hlýtur að fara illa út úr þessu,“ segir Unnur sem er vön að synda daglega og spila golf. 

„Hugsaðu þér fólk sem er veikt fyrir, eldra en ég og á við einhverja erfiðleika að stríða. Þetta fer náttúrlega með hverja venjulega manneskju. Þú hugsar um þetta á hverjum degi. Börnin þín gera það líka og barnabörnin þín gera það líka.“

„Gleymumst við?“

Unnur fékk aldrei skýringar á biðinni en segir að hún hafi kannski aldrei spurt almennilega um það. 

Ég gaf mér fyrst að það væri svona mikil bið á þessu vegna kórónuveiru. Svo þegar ég fattaði að það gæti ekki verið skýringin á þessu öllu fór ég að hugsa um það hvort það væri vegna þess að ég væri 65 ára gömul kona. Gleymumst við? Er ekki tekið almennilega mark á okkur? Ég hugsa svolítið um það hvort ég sé með einhverja vitlausa aðferð sem sjúklingur. Hvort það geti verið að ég kunni þetta ekki eða hvort það geti verið að kerfið funkeri bara verr fyrir okkur.“

Unnur er nú á fimmta degi eftir fyrstu lyfjameðferð. Síðustu tveir dagar hafa verið henni erfiðir. „Ég er að prófa að láta sterana vera og taka bara panodil eða eitthvað saklausara,“ segir Unnur. 

Batalíkur eru frekar miklar en á sama tíma er líklegt að Unnur þurfi að fara í fjögurra mánaða lyfjameðferð, síðan í geislameðferð og mögulega fleiri meðferðir í framhaldinu. Hún getur ekkert unnið og segir ómögulegt að skipuleggja framtíðina með kærastanum sínum. 

Bóndadóttir vestan af Snæfellsnesi sem ætlar upp brekkuna

Hugsarðu stundum um það að krabbameinið hefði mögulega dreifst minna ef þú hefðir ekki þurft að bíða svo lengi? 

„Maður veit það ekki en auðvitað hugsar maður þannig, auðvitað heldur maður það. Tíminn vinnur með meininu, ekki með mér, ekki með lífinu. Það er alveg ljóst,“ segir Unnur, hún lítur þó ótrúlega jákvæðum augum á lífið. 

„Eins og ég segi þá kann ég það lag á lífinu að verða ekkert of miður mín. Ég er bóndadóttir vestan af Snæfellsnesi og mamma mín var þýsk og lifði af stríðið. Ég ætla upp þessa brekku.“

Sótthreinsaði blokkina í upphafi veikinda

Unnur er atorkusöm og hefur því ekki hug á að sitja allan daginn og gera ekki neitt. Þessa dagana er hún iðin við að prjóna og sauma en í upphafi veikindanna lét hún gott af sér leiða. 

„Ég er dugleg og nenni öllu. Ég þurfti að vera heima, sundlaugin var lokuð og ekkert golf, svo ég tók mig til eftir einn blaðamannafund almannavarna um miðjan mars og sprittaði neðri hluta blokkarinnar á hverjum einasta degi fram til 1. maí. Handföngin, lyftuna, ruslatunnulokin og stigahandriðin,“ segir Unnur.

„Í þessari blokk sem ég bý í býr margt eldra fólk. Ég hugsaði að ég gæti alveg eins gert þetta og hugsað um þetta fólk í kringum mig í stað þess að vera að væflast inni í íbúðinni. Eftir á var það að sumu leyti góð upplifun að hafa gert þetta og hugsað svolítið um aðra,“ segir Unnur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert