„Hækkun á skólamat kom foreldrum algjörlega í opna skjöldu í upphafi skólaárs og þykir okkur með ólíkindum að foreldrum hafi ekki verið tilkynnt fyrir fram um hækkun á gjaldskrá,“ segir í bréfi Foreldrafélags Grunnskóla Seltjarnarness til bæjarstjórnar Seltjarnarness.
Í bréfinu er skorað á bæjarstjórn að endurskoða þá ákvörðun að hætta að greiða niður skólamat.
Morgunblaðið greindi frá óánægju foreldra með ákvörðun bæjarstjórnar á dögunum en ráðist var í útboð á framleiðslu og framreiðslu skólamatar. Starfsfólki var sagt upp og samfara þessu var hætt að niðurgreiða mat skólabarna. Reiknað hefur verið út að foreldrar barna í grunnskóla greiði 23% meira fyrir mat í ár en í fyrra og hækkunin nemi 45% hjá börnum á leikskólanum.
„Miklar óánægjuraddir [eru] innan foreldrasamfélagsins bæði vegna samskiptaleysis sem og hversu gríðarlegar breytingar þetta eru fyrir fjárhag fjölskyldna. Þess vegna óskum við þess að bæjarstjórn taki málið fyrir sem allra fyrst og taka afstöðu til beiðna okkar um að halda áfram niðurgreiðslu skólamáltíða,“ segir í bréfinu.