Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins 2020 liggur fyrir. Rekstrarafkoma tímabilsins er neikvæð um 115 milljarða kr. sem er 37 milljörðum kr. lakari afkoma en gert var ráð fyrir.
Þetta kemur fram á vef fjármálaráðuneytisins.
Fram kemur, að tekjur tímabilsins án fjármunatekna hafi numið 350 milljörðum sem er um 38 milljörðum lægra en áætlun gerði ráð fyrir. Þar af skýri ákvörðun um aukinn gjaldfrest á skilum opinberra gjalda að 11 milljarða skatttekjur sem annars hefðu verið greiddar á fyrri hluta árs falla til síðar. Tekjuskattur einstaklinga sé 12 milljörðum lægri en áætlun gerði ráð fyrir, virðisaukaskattur 13 milljörðum undir áætlun og tryggingagjald 6 milljörðum lægri en áætlun.
Gjöld tímabilsins fyrir fjármagnsliði eru 442 milljaðar sem er tæpum einum milljarði lægra en áætlun. Ýmsum útgjöldum vegna efnahagsáhrifa Covid-19 hefur verið mætt með auknum fjárheimildum á fjáraukalögum.
Tekið er fram, að mestu umframgjöld tímabilsins séu í bótum vegna félagslegrar aðstoðar og í sérhæfðri sjúkrahúsþjónustu, rúmlega 2 milljarðar í hvorum málaflokki.