Braut gegn konu í skammtímavistun

Maðurinn var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot …
Maðurinn var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann á fimmtugsaldri fyrir að brjóta kynferðislega gegn þroskahamlaðri konu í starfi sínu á skammtímavistun fyrir fatlaða hjá Reykjavíkurborg.

Greint var frá þessu í kvöldfréttum RÚV, en málið kom upp í febrúar á síðasta ári þegar konan dvaldi á Holtavegi 27, sem er skammtímavistun fyrir fatlaða á vegum borgarinnar.

Vísað er í dóminn þar sem segi að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína og skipað henni að fara í sturtu og þvegið henni víðs vegar um líkamann, meðal annars um brjóst og kynfæri.

Fyrir hafi legið að konan hefði aldrei þurft aðstoð við að baða sig.

Átta mánaða skilorðsbundið fangelsi

Maðurinn var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot og brot í opinberu starfi, auk greiðslu fimm hundruð þúsund króna miskabóta. 

Konan hafði sótt vistunina á Holtavegi í fimmtán ár en hefur ekki farið síðan málið kom upp. Atvikið hafi haft talsverð áhrif á hana þar sem hún hafi lagt mikið traust á starfsfólkið.

Hvorki hún né móðir hennar hafa heyrt frá borginni eftir að dómurinn féll, en ekki kemur fram í umfjöllun RÚV hvenær hann var kveðinn upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert