Þessa dagana er verið að fóðra og laga eina gjöfulustu heitavatnsholu borgarinnar við Bolholt og við verkið er notaður stærðarinnar jarðbor. Því þarf tímabundið að loka göngu- og hjólastígum sem liggja meðfram Kringlumýrarbraut að Laugavegi. Borað er niður á 764 metra dýpi þar sem vatnið er 125°.
Holan sem um ræðir kallast því vinalega nafni RG-20, en borað var fyrir henni árið 1963. Varmaaflið sem fæst úr henni dugar til að hita upp 2.000 heimili á ári hverju en 10 holur eru á svæðinu þar í kring.
Borinn sem um ræðir heitir Nasi og er í eigu Ræktunarfélags Flóa og Skeiða en hann getur borað holur sem eru 650 mm að þvermáli niður á 2.000 metra dýpi. Samkvæmt upplýsingum borgarinnar hefur jarðbor af þessari stærðargráðu ekki verið verið notaður á höfuðborgarsvæðinu í áraraðir.
Búist er við að framkvæmdum ljúki um miðjan október en fyrirtæki og heimili í kring hafa verið látin vita af mögulegu raski og hávaða sem þeim munu óhjákvæmilega fylgja.
Samkvæmt útreikningum Veitna hefði verið búið sleppa 3.300.000 tonnum af Co2 út í andrúmsloftið hefði þurft að kynda með jarðgasi í þessi tæpu 60 ár í stað þess að nýta varmann af RG-20.