Kosningin hvorki frjáls né sanngjörn

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við virðum rétt hvítrússneska fólksins til að velja sinn eigin veg. Frjálsir og sjálfstæðir fjölmiðlar og sterkt borgaralegt samfélag eru grunnforsendur þess að hægt verði að finna sjálfbærar lausnir á krísunni í Hvíta-Rússlandi.“

Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórarinsson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, í sameiginlegu ávarpi Norðurlandanna á óformlegum fundi öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um málefni Hvíta-Rússlands sem haldinn var í dag.

„Kosningin í Hvíta-Rússlandi var hvorki frjáls né sanngjörn,“ sagði Guðlaugur í ávarpi sínu.

„Notkun ofbeldis gegn friðsælum mótmælendum, fréttamönnum og öðru fjölmiðlafólki í kjölfar kosninganna olli miklum áhyggjum. Óskir Hvít-Rússa um virðingu og áheyrn í frjálsum og sanngjörnum kosningum eru lögmæt krafa.“

Guðlaugur heimtaði að hvítrússnesk stjórnvöld slepptu úr haldi öllum þeim sem voru teknir höndum á ólögmætan hátt, þar á meðal þeim sem handteknir voru af pólitískum ástæðum.

AFP

Einnig kallaði utanríkisráðherra eftir sjálfstæðri rannsókn á ásökunum um pyntingar og aðra illa meðferð á þeim sem handteknir voru.

„Allir þeir sem fremja mannréttindabrot þurfa að vera dregnir til ábyrgðar.“

Að lokum sagði Guðlaugur að Norðurlöndin myndu styðja öll átök til að finna friðsamlega lausn á ástandinu, og að þau myndu halda áfram að styðja lýðræðislegt, sjálfstætt og velmegandi Hvíta-Rússland.

Fundurinn var haldinn að frumkvæði Eista, sem eiga sæti í öryggisráðinu um þessar mundir, og með stuðningi Bretlands, Bandaríkjanna, Kanada, Danmerkur, Íslands, Lettlands, Litháens, Póllands, Rúmeníu og Úkraínu.

Frummælendur fundarins voru meðal annars Anaïs Marin, sérstakur skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um ástand mannréttinda í Hvíta-Rússlandi, Sviatlana Tsikhanouskaya, sem var frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í nýafstöðnum forsetakosningum í Hvíta-Rússlandi, Valiantsin Stefanovic, varaforseti mannréttindasamtakanna Viasna, og Volha Siakhovich, á vegum blaðamannasambands Hvíta-Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert