Róbert Spanó, hinn íslenski forseti Mannréttindadómstóls Evrópu, átti í gær fund með Erdogan forseta Tyrklands, á skrifstofu hans í Ankara.
Fréttir um að Róbert muni í ferðinni þiggja heiðursdoktorsnafnbót við háskólann í Istanbúl hafa vakið gagnrýni vegna þess hvernig tyrknesk stjórnvöld hafa komið fram við fjölda kennara og fræðimanna við skólann. Hafa á annað hundrað þeirra verið reknir eftir að tilraun var gerð til valdaráns í landinu fyrir fjórum árum.
Gagnrýnendum þykir skjóta skökku við gagnvart gildum og niðurstöðum dómstólsins að forseti hans taki við heiðursnafnbót frá ríkisreknum háskóla í Tyrklandi. Mehmet Altan, hagfræðiprófessor sem var fangelsaður í kjölfar valdaránstilraunarinnar, benti á að dómsmál sem hann og fleiri hafa höfðað gegn háskólanum færu líklega fyrir Mannréttindadómstólinn og Róbert yrði þá með heiðursnafnbót frá varnaraðilanum.