Tæknin gjörbreytir löggæslunni

Efni úr myndavélum víða berst á rauntíma á lögreglustöð, þar …
Efni úr myndavélum víða berst á rauntíma á lögreglustöð, þar sem er fylgst með og brugðist við ef þarf. Myndir frá þremur sjónarhornum koma af hverjum stað, svo sem frá Hveragerði, Selfossi, Hellu og Hvolsvelli.

Notkun eftirlitsmyndavéla, sem meðal annars greina bílnúmer, gefur góða raun í starfi lögreglunnar á Suðurlandi. Slíkum vélum hefur verið komið upp við nokkra þéttbýlisstaði og á fjölförnum leiðum á varðsvæðinu – og að fenginni reynslu síðustu missera stendur til að fjölga þeim og skipta nokkrum út fyrir nýjar.

„Ekki líður sá dagur að gögn úr myndavélunum nýtist okkur ekki, bæði í almennri lögreglu eða við rannsókn mála í öllum brotaflokkum. Þessi tækni hefur breytt okkar starfi,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í Morgunblaðinu í dag.

Myndavélar við meginleiðir

Öryggismyndavélum hefur verið komið upp við allar meginleiðirnar inn í Selfossbæ; á mastri eru þrjár myndavélar sem hver hefur sitt sjónarhornið. Sams konar tæki eru einnig við Hveragerði, Stokkseyri, Hellu og Hvolsvöll. Uppsetning myndavéla við Þorlákshöfn og Bláfjallaafleggjarann á Sandskeiði er í undirbúningi og fleiri staðsetningar á umræðustigi, svo sem í uppsveitum Árnessýslu.

„Myndefnið berst á rauntíma í gegnum ljósleiðara og á tölvuskjá hér á lögreglustöðinni getum við fylgst með útsendingu frá öllum stöðunum í einu. Myndefnið er svo geymt í fjórar vikur, en strangar reglur gilda um vörslu þess og aðgengi. Stóri galdurinn er þó sá að myndavélarnar greina bílnúmer. Ef því er slegið inn í leitarglugga koma upp myndir af bílnum úr öllum þeim tilvikum þar sem honum hefur verið ekið fyrir linsu myndavéla síðasta mánuðinn,“ segir Oddur meðal annars.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert