Notkun eftirlitsmyndavéla, sem meðal annars greina bílnúmer, gefur góða raun í starfi lögreglunnar á Suðurlandi. Slíkum vélum hefur verið komið upp við nokkra þéttbýlisstaði og á fjölförnum leiðum á varðsvæðinu – og að fenginni reynslu síðustu missera stendur til að fjölga þeim og skipta nokkrum út fyrir nýjar.
„Ekki líður sá dagur að gögn úr myndavélunum nýtist okkur ekki, bæði í almennri lögreglu eða við rannsókn mála í öllum brotaflokkum. Þessi tækni hefur breytt okkar starfi,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, í Morgunblaðinu í dag.
Öryggismyndavélum hefur verið komið upp við allar meginleiðirnar inn í Selfossbæ; á mastri eru þrjár myndavélar sem hver hefur sitt sjónarhornið. Sams konar tæki eru einnig við Hveragerði, Stokkseyri, Hellu og Hvolsvöll. Uppsetning myndavéla við Þorlákshöfn og Bláfjallaafleggjarann á Sandskeiði er í undirbúningi og fleiri staðsetningar á umræðustigi, svo sem í uppsveitum Árnessýslu.
„Myndefnið berst á rauntíma í gegnum ljósleiðara og á tölvuskjá hér á lögreglustöðinni getum við fylgst með útsendingu frá öllum stöðunum í einu. Myndefnið er svo geymt í fjórar vikur, en strangar reglur gilda um vörslu þess og aðgengi. Stóri galdurinn er þó sá að myndavélarnar greina bílnúmer. Ef því er slegið inn í leitarglugga koma upp myndir af bílnum úr öllum þeim tilvikum þar sem honum hefur verið ekið fyrir linsu myndavéla síðasta mánuðinn,“ segir Oddur meðal annars.