Guðmundur Torfason, fyrrverandi fótboltakappi, var hársbreidd frá því að vinna Mercedes Benz-bifreið á mótinu Draumhöggið á Nesinu.
Mótið var haldið af Einherja fyrir þá sem hafa farið holu í höggi á þessu ári. Þeir sem endurtækju leikinn á mótinu áttu kost á að eignast nýja bifreið.
Á facebooksíðu Einherja kemur fram að bolti Guðmundar endaði aðeins 34 sentimetrum frá holunni en alls tóku 75 manns þátt í mótinu, en Rúv greindi einnig frá.
Keppendur máttu aðeins nota eitt högg og var keppt á annarri holu Nesvallar á Seltjarnarnesi, að sögn Guðmundar Óskarssonar, formanns Einherjaklúbbins. Stressið var töluvert hjá keppendum enda hafði bifreiðinni verið stillt upp við teiginn.
Hann segir þetta mikla covid-ár hafa verið óvenjulegt í golfinu því alls hafa 92 atvik vegna holu í höggi verið skráð hjá klúbbnum á þessu ári. Venjulega eru þau um 130 á hverju ári en þá eru taldir með spilarar sem fara til Flórída og Spánar. Holurnar í höggi hafa því verið mun fleiri hérlendis en áður vegna kórónuveirunnar.