Í sumar bárust Skattinum 79% fleiri umsóknir en á sama tímabili í fyrra þar sem óskað var eftir að færa skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar af endurfjármögnuðu láni og yfir á nýtt lán.
Aukningin gefur til kynna að fjölmargir nýti sér þau lægri vaxtarkjör sem bjóðast nú og endurnýi húsnæðislán sín.
Þetta kemur fram í skriflegu svari Skattsins við fyrirspurn mbl.is.
Þessi stóraukni fjöldi umsókna hefur lengt afgreiðslutímann, og hefur afgreiðslutími umsókna í einhverjum tilvikum teygt sig í 12 vikur, en er alla jafna styttri. Þó ber að nefna að afgreiðslutími umsókna á það til að lengjast lítillega vegna sumarleyfa.
Í ágúst og það sem af er september hafa um 100 umsóknir borist á hverjum degi, og eins og staðan er núna eru tæplega 3.500 umsóknir til afgreiðslu.
Aukinn kraftur hefur verið settur í afgreiðsluna og vonir standa til þess að afgreiðslutími styttist ört á næstunni.