Rétt fyrir klukkan tíu í kvöld barst slökkviliðinu tilkynning um meðvitundarlausan einstakling sem lægi í sjónum á bak við Hörpu í Reykjavíkurhöfn. Slökkvilið og lögregla komu á staðinn og samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var einstaklingnum bjargað úr sjónum fimmtán mínútum eftir að tilkynning barst.
Slökkviliðið sendi körfubíl, kafarabíl, slökkvibíl og sjúkrabíl ásamt dágóðum mannskap. Bæði lögregla og mannskapur frá slökkviliðinu fór fljótt í sjóinn til þess sem þar lá og héldu honum á floti þar til mögulegt var að hífa hann upp með körfubíl.
Einstaklingurinn var ekki langt úti í sjó heldur við grjótgarðinn. Hann var kominn aftur til meðvitundar þegar viðbragðsaðilar náðu honum upp úr. Í kjölfarið var hann fluttur á bráðamóttöku en ekki fengust upplýsingar um líðan hans.
Líklega var um slys að ræða.