Einn var fluttur á slysadeild eftir að eldur kom upp í íbúð í fjölbýlishúsi á Sléttuvegi í Reykjavík um níuleytið í morgun.
Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu hafði eldur kviknað út frá potti og þegar slökkviliðið kom á staðinn var reykur kominn fram á stigaganginn.
Reykkafarar voru sendir inn í íbúðina. Þar var einn inni sem var fluttur á slysadeild með reykeitrun.
Verkefnið tók um eina klukkustund. Fyrst var allt tiltækt slökkvilið sent á vettvang en á endanum sinntu tvær stöðvar reykræstingu í íbúðinni og sameigninni.
Aðrir íbúar fjölbýlishússins voru beðnir að halda kyrru fyrir í sínum íbúðum á meðan reykræst var.