Starfsmaðurinn í eldhúsi Fossvogsskóla sem greindist með kórónuveiruna var í sóttkví þegar hann greindist með veiruna.
Viðkomandi mætti í vinnu á mánudag og þriðjudag og taldi sig ekki sýna einkenni, en að mati skólastjóra virtist starfsmaðurinn slapplegur. Á þriðjudagskvöld fékk starfsmaðurinn tilkynningu um að vinur hans hafi greinst með veiruna, og fór viðkomandi þess vegna í sóttkví.
Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við mbl.is.
Starfsmaðurinn greindist með veiruna á fimmtudagskvöld, en til að ganga úr skugga um að smit dreifðist ekki í skólanum var ákveðið að þrír aðrir starfsmenn, sem höfðu unnið náið með viðkomandi, færu líka í sóttkví.
Helgi segir að gengið hafi verið lengra en rakningarteymi fór fram á. Reynt var að ná í starfsmenn skólans sem höfðu verið í samneyti við þann smitaða frá því á mánudag.
Smitrakningu lauk á föstudagsmorgun og engin fleiri smit hafa komið upp í tengslum við málið. Skólahald í Fossvogsskóla mun ekki raskast vegna smitsins.
Helgi kveðst ánægður með það hvernig smitvarnir hafa gengið í grunnskólum borgarinnar, en hann segir að ekkert smit hafi náð að dreifa sér innan skóla hingað til.