Útlit er fyrir góða kornuppskeru um allt land í haust. Uppskerustörf eru hafin á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum og er uppskeran það sem af er í meðallagi. Fleiri bændur á Suðurlandi eru að hefja uppskerustörf.
Sömu söguna er að segja af Norðurlandi en útlit er fyrir betri uppskeru í Eyjafirði en verið hefur í mörg ár. Bændur eru þó hræddir við áhrif lægða sem eru að ganga yfir, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Uppskerustörf hófust á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum 26. ágúst og var þá sleginn 25 hektara akur. Ólafur Eggertsson bóndi segir að þar hafi grasfræi verið sáð með kríu sem er fljótsprottið byggafbrigði. Sú blanda gefi góða raun. „Byggið var orðið gott og vel þroskað og náðist fyrir rignirnar um daginn. Nú er aftur komin blíða og eftir daginn í dag verðum við komin með einn þriðja uppskerunnar í hús og við náum vonandi einhverju líka á morgun,“ segir Ólafur í blaðinu íi dag.