Ökumaður Peugeot-bifreiðar á Reykjanesbraut ók yfir á rangan vegarhelming og í veg fyrir Kia-bifreið sem kom á móti með þeim afleiðingum að farþegi bifreiðarinnar, sem var ekki spenntur í bílbelti, lést. Sennilega sofnaði ökumaðurinn við aksturinn en hann hafði vakað alla nóttina fyrir slysið. Atvikið átti sér stað í október árið 2018 en skýrsla sem leiðir ástæðu banaslyssins í ljós var birt í vikunni.
Slysið varð undir morgun hinn 28. október 2018. Ökumaður Peugeot-bifreiðarinnar kvaðst ekki muna eftir að hafa ekið yfir á rangan vegarhelming en hann hafði vakað alla nóttina, að því er fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa. Ökumaður Kia-bifreiðarinnar kvaðst ekki hafa náð að bregðast við aðstæðum með því að hemla. Engin hemla- né skriðför sáust á veginum. Árekstrarstaður var vel greinilegur á miðri akrein fyrir umferð til austurs.
Enginn farþegi var í Kia-bifreiðinni en einn farþegi í Peugeot-bifreiðinni. Sá var ekki spenntur í öryggisbelti en loftpúði í mælaborði blés út þegar slysið varð. Farþeginn kastaðist fram á mælaborðið og hlaut af því banvæna höfuðáverka. Að mati nefndarinnar hefði farþeginn sennilega lifað slysið af hefði hann verið spenntur í öryggisbelti. Ökumaðurinn var spenntur í öryggisbelti og loftpúði í stýri blés út. Hann hlaut áverka á hné og brjóstkassa. Ökumaðurinn í Kia-bifreiðinni var spenntur í öryggisbelti og loftpúði í stýri blés út. Hann hlaut talsverða áverka.
Við skoðun á bifreiðunum tveimur fannst ekkert sem skýrt getur orsök slyssins. Sömuleiðis er talið að ökuhraði bifreiðanna hafi verið 80 km/klst sem er hámarkshraði á umræddum stað. Yfirborð vegarins var blautt en hálkulaust. Báðir ökumenn fóru í áfengisrannsókn og reyndist hún neikvæð.
RÚV greindi fyrst frá því að skýrslan hefði verið birt í vikunni.