Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og stjórnendur á Holtavegi, þar sem borgin rekur skammtímavistun fyrir fatlað fólk, harma að starfsmaður vistunarinnar hafi gerst sekur um alvarlegt brot gegn fatlaðri konu. Hafa þau dregið lærdóm af málinu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá velferðarsviði borgarinnar vegna dóms sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur 2. september.
Fram kemur í yfirlýsingunni að verkferlum hafi verið breytt um leið og grunur vaknaði um brot.
„Allir verkferlar sem varða aðstoð við persónulegt hreinlæti hafa verið yfirfarnir og endurskoðaðir. Skýr kynjaskipting hefur verið tekin upp og notendur fá einungis aðstoð frá starfsmönnum af sama kyni,“ segir í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að tómstundastarf hafi verið skipulagt upp á nýtt til að draga sem mest úr þeim aðstæðum þar sem starfsmenn eru einir með notendum.
Sömuleiðis er nú tryggt að nú verða ávallt tveir starfsmenn á næturvöktum sem tryggir öryggi notenda og starfsmanna.
„Allir aðstandendur þeirra sem dvöldu á Holtavegi á þeim tíma sem grunur vaknaði um brot voru upplýstir um málið og þeir hvattir til að hafa samband við lögreglu ef þeir hefðu minnsta grun um að eitthvað hefði komið fyrir þeirra barn eða ungmenni í skammtímavistuninni,“ segir í tilkynningunni.
„Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og stjórnendur á Holtavegi harma að starfsmaður skammtímavistunarinnar hafi gerst sekur um svo alvarlegt brot og hafa dregið lærdóm af málinu.“