Kærður vegna annars máls en því vísað frá

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Hallur Már

Móðir fatlaðs einstaklings sem sótti skammtímavistun á Holtavegi lagði fram kæru til lögreglu vegna sama manns og var dæmdur fyrir alvarlegt brot gegn fatlaðri konu. Málinu var vísað frá.

Þetta segir Ingibjörg Sigurþórsdóttir, framkvæmdastjóri Miðgarðs, þjónustumiðstöðvar Grafarvogs og Kjalarness, sem heldur utan um skammtímavistanir á vegum borgarinnar.

RÚV greindi fyrst frá málinu.  

Eftir að málið sem maðurinn var fundinn sekur um kom upp í fyrra var fólk hvatt til að ræða við sín börn og skömmu síðar steig móðirin fram og lagði fram kæruna. Að sögn Ingibjargar hafði móðirin áhyggjur og ákveðnar grunsemdir vegna háttsemi hans gagnvart barni hennar. Ekki þóttu vera nægileg rök fyrir þessum grunsemdum og var málinu því vísað frá.

„Við hörmum mjög að þetta hafi komið upp,“ segir Ingibjörg og bætir við að borgin vilji gera allt sem í hennar valdi stendur til að byggja upp góða og örugga þjónustu fyrir þá sem koma til hennar.

Hún segir að búið sé að skerpa á ýmsum málum en stærsta breytingin snúi að því að núna verða ávallt tveir starfsmenn á næturvöktum. „Aðrir verkferlar voru til staðar en það var skerpt á þeim.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert