Ofurölvi kona var handtekin í strætisvagni í hverfi 105 laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi grunuð um líkamsárás og fleiri brot. Hún er grunuð um að hafa ráðist á vagnstjórann og reynt að slá hann með áfengisflösku.
Konan var vistuð fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglunnar, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Rúmlega eitt hundrað mál voru skráð í dagbókina á milli klukkan 17 og 5 í nótt og var mikið um hávaðatilkynningar. Samtals voru sjö vistaðir í fangageymslu lögreglunnar.
Á Granda var brotið gegn reglum um fjöldasamkomu. Þegar lögreglan kom á staðinn klukkan hálftvö voru um 100 manns inni á veitingastað og var þétt setið en verið var að halda upp á afmæli.
Tilkynnt var um umferðaróhapp í hverfi 105 um fimmleytið í gær. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Um svipað leyti var bifreið stöðvuð í hverfi 108. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og brot á vopnalögum.
Ellefu ökumenn til viðbótar voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis.
Í Árbænum var tilkynnt um sexleytið í gærkvöldi um innbrot og þjófnað í íbúð. Farið var inn og stolið verðmætum, þar á meðal sjónvarpi.