Uppköst í 45 daga

„Mér var alltaf óglatt og líka eftir að ég komst …
„Mér var alltaf óglatt og líka eftir að ég komst úr einangruninni. Ég ældi í fjörutíu og fimm daga,“ segir Arna Rós Bragadóttir sem veiktist af kórónuveirunni á Hvammstanga í mars. mbl.is/Ásdís

„Ég er frá Hvammstanga og hafði farið heim. Ég fór á skemmtun með Sóla Hólm í félagsheimilinu og þar smituðust margir, en þetta var fyrir samkomubann. Kona sem ég umgekkst greindist eftir á með mótefni en varð ekki veik, en ég veit í raun ekki hvort hún smitaði mig eða ég hana,“ segir Arna Rós Bragadóttir sem greindist með kórónuveiruna 13. mars.

„Tíunda mars fékk ég mjög stíflað nef og svo höfuðverk og ælupest um kvöldið,“ segir Arna sem segist í raun ekki hafa grunað í upphafi að hún væri með Covid.

„Ég vinn á smitsjúkdómadeildinni þannig að ég var með varann á mér. Ég var samt ekki með þessi týpísku einkenni,“ segir hún og bætir við: „Þegar þarna er komið var ég ekki byrjuð að vinna með Covid-sjúklingum því þetta er það snemma í faraldrinum.“

Ælupest allan tímann

„Ég fór í sýnatöku tólfta mars og fékk niðurstöðuna daginn eftir. Ég fór bara að gráta; þetta var sjokk. Ég bjóst eiginlega ekki við þessu og fór í raun í prófið til að útiloka þetta og geta farið aftur í skólann. Okkur sem vinnum á smitsjúkdómadeildinni var sagt að fara í skimun við minnstu einkenni,“ segir hún og segir eins gott að þessar reglur hafi verið settar.
Arna Rós átti framundan einangrun á heimili sínu á stúdentagörðum og varð lasin en ekki mjög veik.

„Ég var í einangrun í fjórtán daga og var með ælupest nánast allan tímann,“ segir Arna og segir þetta aðallega hafa lagst á meltingarfærin hjá sér, en einnig fékk hún hita og hósta.
„Mér var alltaf óglatt og líka eftir að ég komst úr einangruninni. Ég ældi í fjörutíu og fimm daga. Ég mætti ekki í vinnu fyrst um sinn. Þolið fór alveg og ég þurfti að vinna það upp hægt og rólega. Ég missti líka matarlystina en passaði vel upp á að fá næringu,“ segir hún og segir magaeinkennin ekki hafa hætt.

„Ég var á ógleðistillandi lyfjum og náði þá að borða aðeins en þegar ég hætti á þeim var ég enn með væga ógleði,“ segir hún.

„Svo er lyktarskynið breytt. Ég missti aldrei alveg hvorki bragð- né lyktarskyn en það dofnaði. Bragðskynið er komið aftur en lyktarskynið er breytt. Vond lykt er til dæmis öll eins. Það er oft sagt að unga fólkið veikist ekki eins og þeir eldri, og ég var aldrei alvarlega veik, en ég bjóst ekki við að einkennin myndu vara svona lengi. Ég hélt að allt yrði eins eftir tveggja vikna einangrun,“ segir hún. 

„Það er mikið búið að gerast og ég hef lært helling en þetta er alveg komið gott.“

Lengra viðtal er við Örnu Rós í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina, ásamt viðtali við Má Kristjánsson, yfirlækni smitsjúkdómalækninga. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert