Uppköst í 45 daga

„Mér var alltaf óglatt og líka eftir að ég komst …
„Mér var alltaf óglatt og líka eftir að ég komst úr einangruninni. Ég ældi í fjörutíu og fimm daga,“ segir Arna Rós Bragadóttir sem veiktist af kórónuveirunni á Hvammstanga í mars. mbl.is/Ásdís

„Ég er frá Hvammstanga og hafði farið heim. Ég fór á skemmt­un með Sóla Hólm í fé­lags­heim­il­inu og þar smituðust marg­ir, en þetta var fyr­ir sam­komu­bann. Kona sem ég um­gekkst greind­ist eft­ir á með mót­efni en varð ekki veik, en ég veit í raun ekki hvort hún smitaði mig eða ég hana,“ seg­ir Arna Rós Braga­dótt­ir sem greind­ist með kór­ónu­veiruna 13. mars.

„Tí­unda mars fékk ég mjög stíflað nef og svo höfuðverk og ælu­pest um kvöldið,“ seg­ir Arna sem seg­ist í raun ekki hafa grunað í upp­hafi að hún væri með Covid.

„Ég vinn á smit­sjúk­dóma­deild­inni þannig að ég var með var­ann á mér. Ég var samt ekki með þessi týpísku ein­kenni,“ seg­ir hún og bæt­ir við: „Þegar þarna er komið var ég ekki byrjuð að vinna með Covid-sjúk­ling­um því þetta er það snemma í far­aldr­in­um.“

Ælu­pest all­an tím­ann

„Ég fór í sýna­töku tólfta mars og fékk niður­stöðuna dag­inn eft­ir. Ég fór bara að gráta; þetta var sjokk. Ég bjóst eig­in­lega ekki við þessu og fór í raun í prófið til að úti­loka þetta og geta farið aft­ur í skól­ann. Okk­ur sem vinn­um á smit­sjúk­dóma­deild­inni var sagt að fara í skimun við minnstu ein­kenni,“ seg­ir hún og seg­ir eins gott að þess­ar regl­ur hafi verið sett­ar.
Arna Rós átti framund­an ein­angr­un á heim­ili sínu á stúd­enta­görðum og varð las­in en ekki mjög veik.

„Ég var í ein­angr­un í fjór­tán daga og var með ælu­pest nán­ast all­an tím­ann,“ seg­ir Arna og seg­ir þetta aðallega hafa lagst á melt­ing­ar­fær­in hjá sér, en einnig fékk hún hita og hósta.
„Mér var alltaf óglatt og líka eft­ir að ég komst úr ein­angr­un­inni. Ég ældi í fjöru­tíu og fimm daga. Ég mætti ekki í vinnu fyrst um sinn. Þolið fór al­veg og ég þurfti að vinna það upp hægt og ró­lega. Ég missti líka mat­ar­lyst­ina en passaði vel upp á að fá nær­ingu,“ seg­ir hún og seg­ir maga­ein­kenn­in ekki hafa hætt.

„Ég var á ógleðistill­andi lyfj­um og náði þá að borða aðeins en þegar ég hætti á þeim var ég enn með væga ógleði,“ seg­ir hún.

„Svo er lykt­ar­skynið breytt. Ég missti aldrei al­veg hvorki bragð- né lykt­ar­skyn en það dofnaði. Bragðskynið er komið aft­ur en lykt­ar­skynið er breytt. Vond lykt er til dæm­is öll eins. Það er oft sagt að unga fólkið veikist ekki eins og þeir eldri, og ég var aldrei al­var­lega veik, en ég bjóst ekki við að ein­kenn­in myndu vara svona lengi. Ég hélt að allt yrði eins eft­ir tveggja vikna ein­angr­un,“ seg­ir hún. 

„Það er mikið búið að ger­ast og ég hef lært hell­ing en þetta er al­veg komið gott.“

Lengra viðtal er við Örnu Rós í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina, ásamt viðtali við Má Kristjáns­son, yf­ir­lækni smit­sjúk­dóma­lækn­inga. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert