Bifreið var stöðvuð í Kópavogi upp úr klukkan hálftvö í nótt eftir að hafa verið mæld á 141 km hraða á klukkustund þar sem leyfður hámarkshraði við bestu aðstæður er 80 km/klst.
Ökumaðurinn var með nokkurra daga gamalt ökuskírteini sem hann má búast við að missa í kjölfarið.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði fjölda ökumanna í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Þá var töluvert um útköll vegna samkvæmishávaða í heimahúsum í öllum hverfum, að því er segir í dagbók lögreglunnar.
Í miðborginni var einn handtekinn upp úr klukkan hálfeitt grunaður um líkamsárás. Hann var vistaður í fangaklefa.
Um ellefuleytið í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í bifreið í Árbænum og um klukkutíma áður var tilkynnt um rúðubrot í sama hverfi.