Hvergi á Norðurlöndum er brottfall úr framhaldsskólum meira en hér á landi. Einn af þingmönnum Hægri flokksins í Noregi, Marianne Synnes Emblemsvåg, hefur orð á þessu í grein um stöðu þessara mála í norrænu löndunum. Greinin birtist á mánudaginn í vefritinu Utdanningsnytt.
Í greininni er sagt að brottfallið hér á landi sé um 18 prósent. Í öðrum norrænum löndum sé það innan við tíu prósent. Í Noregi hafi það verið 17,4 prósent fyrir áratug en tekist hafi að minnka það og sé það nú 9,9 prósent, álíka og í Danmörku. Brotthvarf sé aftur á móti minna í Finnlandi og Svíþjóð.
Í greininni er sérstaklega vikið að kynjamun á brotthvarfinu. Hvergi á Norðurlöndum sé jafn algengt að piltar hverfi frá námi og hér á landi. Hlutfallið sé nær 25 prósent, tvöfalt meira en hjá stúlkum, og hafi verið óbreytt í áratug. Þetta er borið saman við Noreg og segir að brotthvarfið meðal pilta hafi verið rúmlega 21 prósent fyrir áratug. Tekist hafi að bregðast við þessu og í fyrra hafi brotthvarfið verið komið niður í tæp 12 prósent.
Fram kemur að þótt brottfall sé mikið úr bóknámi sé það enn meira úr starfsnámi. Brottfallið hafi alvarlegar afleiðingar fyrir möguleika unga fólksins til að hasla sér völl í atvinnulífinu. Atvinnurekendur kjósi yfirleitt fremur að ráða til starfa fólk sem lokið hefur framhaldsskólanámi en það sem eingöngu hefur grunnskólanám að baki. Hætt sé við því að ungt fólk sem hvorki er í námi né starfi lendi utangarðs með slæmum afleiðingum fyrir viðkomandi og þjóðfélagið í heild. Þingmaðurinn ræðir einnig ýmsar ástæður fyrir brottfallinu og nefnir að æ algengara sé að ungt fólk, einkum stúlkur, greini frá andlegum erfiðleikum. Ekki sé ljóst hvað veldur, en að einhverju leyti kunni þetta að stafa af opinskárri umræðu um slík mál en áður.
Kristjana Stella Blöndal, dósent við félagsvísindasvið Háskóla Íslands, er sérfróð um þessi mál hér á landi. Hún segir að gallinn við norsku greinina sé að ekki komi fram hvaðan tölurnar sem þar eru birtar séu komnar né hver viðmiðunin er. Samanburður um brottfall á milli landa, þar á meðal Íslands og annarra norrænna landa, sé ýmsum annmörkum háður og margir aðilar að birta tölur um efnið, þar á meðal OECD, ESB, hagstofur Norðurlanda og fleiri. Það sé þó rétt að brotthvarf úr framhaldsskólum sé óvenjulega mikið hér á landi og meira en annars staðar á Norðurlöndum.
Kristjana Stella segir að tölur sem menntamálayfirvöld hér á landi vinni með byggist á gögnum sem Hagstofan hefur birt. Samkvæmt þeim er brottfall þriggja innritunarárganga framhaldsskóla frá 2009 til 2011 eftir fjögur ár 28 prósent fyrir árganginn sem hóf nám 2009, 26 prósent fyrir árganginn 2010 og 27 prósent fyrir árganginn sem hóf nám 2011. Tölurnar eru svipaðar þótt miðað sé við sex ár eða sjö frá innritun í stað fjögurra.
Við samanburð á brottfallinu þarf þó að hafa í huga að aðstæður séu mjög ólíkar hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Framhaldsskólakerfið á Íslandi sé mjög sveigjanlegt enda beinlínis ætlast til þess í lögum um framhaldsskóla. Nemendur hafi aðgang að skólunum á öllum aldri og vegna einingakerfisins geti þeir auðveldlega skipt um skóla og námssvið. Þetta sé ekki raunin í nágrannalöndunum. Áhyggjuefnið utanlands sé aðallega að ungt fólk án framhaldsskólamenntunar fái ekki störf á vinnumarkaði og sé því hvorki í skóla né vinnu. Það einangrist frá þjóðfélaginu og lendi utangarðs og því fylgi margvísleg félagsleg vandamál. Hér hafi ungt fólk sem hættir námi getað fengið vinnu tiltölulega auðveldlega.
Kristinn Þorsteinsson, formaður Skólameistarafélagsins, tekur í sama streng og Kristjana. „Samanburður er mjög erfiður á milli landa þar sem talning er ólík,“ segir hann. „Atvinnuástand á Íslandi hefur ýtt undir brottfall, þannig að ungu fólki hefur staðið til boða vinna án menntunar. Skólakerfið hér er mjög sveigjanlegt og opið. Það er mjög auðvelt fyrir nemendur að hætta og koma aftur. Hvergi eru starfsnámsnemendur eldri en hér til að mynda.“
Kristinn segist samt ekki vilja draga úr vandanum. Brottfall hér sé of hátt og við þurfum að ná betri árangri og til þess sé skýr vilji hjá yfirvöldum menntamála. Kórónuveirufaraldurinn hafi haft áhrif og muni auka brottfall sem sérstök ástæða sé til að hafa áhyggjur af þar sem þeir sem nú hætti í skóla geti ekki gengið að vinnu vísri eins og áður. Á móti komi að stjórnvöld hafi aukið fjárveitingar til að koma fleirum í skóla. Það vinni á móti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. september.