Opnunarhátíð Demantshringsins, sem fara átti fram 22. ágúst síðastliðinn, var haldin í dag á Dettifossvegi í nágrenni við Húsavík. Fulltrúar ríkisstjórnarinnar voru á hátíðinni sem hófst með ávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitastjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, nýsköpunar- og iðnaðarráðherra voru einnig viðstödd en ásamt Katrínu klipptu þau á á borða sem strengdur var yfir nýjan Dettifossveg milli Dettifoss og Vesturdals við Jökulsárgljúfur og opnuðu þar með Demantshringinn með formlegum hætti.
„Demantshringurinn er stórkostlegur 250 kílómetra langur hringvegur á Norðurlandi, en þar er að finna magnaðar náttúruperlur og skemmtilega afþreyingu“, segir í tilkynningu frá Markaðsstofu Norðurlands um málið.
„Með þessari opnun er hægt að keyra milli Húsavíkur, Goðafoss, Mývatnssveitar, Dettifoss og Ásbyrgis á bundnu slitlagi en kallað hefur verið eftir þessari samgöngubót í áraraðir. Gamli vegurinn milli Dettifoss og Ásbyrgis var torfarinn og ófær stóran hluta ársins“, segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu um málið.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, var ánægð með daginn. „Demantshringurinn gerir okkur kleift að heimsækja fjöldamargar náttúruperlur á einum degi og mun opna norðausturhornið enn betur fyrir innlendum og erlendum gestum. Það var stórkostlegt að heimsækja Dettifoss í dag en þessi samgöngubót mun verða til þess að fleiri munu heimsækja hann og aðra stórkostlega staði í þessum landshluta“, er haft eftir Katrínu í tilkynningu.