Draugar og dýrð

Búið að hengja þvott til þerris við læknabústaðinn á Hesteyri.
Búið að hengja þvott til þerris við læknabústaðinn á Hesteyri. Árni Sæberg

„Það hefur sjaldan verið eins gaman að ferðast um Vestfirðina og nú í sumar. Fegurðin og kyrrðin eru engu lík og að þessu sinni tókum við ferðafélagi minn, Katherine Sherlock frá Englandi, meðvitaða ákvörðun um að kúpla okkur frá öllu og fylgjast ekki með neinum miðlum í sex daga. Við hlustuðum ekki einu sinni á fréttir. Það er auðvitað ekkert auðvelt fyrir fréttaljósmyndara en maður hefur gott af því að gera þetta annað slagið; ekki síst á tímum sem þessum þegar neikvæðar fréttir tröllríða öllu vegna kórónuveirufaraldursins. Þetta var voðalega notalegt.“

Kvöldkyrrðin í Ísafjarðarhöfn að lokinni góðri dagsferð til Hesteyrar.
Kvöldkyrrðin í Ísafjarðarhöfn að lokinni góðri dagsferð til Hesteyrar. Árni Sæberg


Þetta segir Árni Sæberg, ljósmyndari Morgunblaðsins, en Sunnudagsblaðið birtir hér aðra myndaopnu frá ferðalagi hans um Vestfirði í ágúst. Sú fyrri var í blaðinu fyrir tveimur vikum.
Þau Katherine fóru vítt og breitt um firðina en hún hafði ekki í annan tíma litið þá dýrð augum og þótti mikið til koma. Þau gistu meðal annars tvær nætur á Gemlufelli í Dýrafirði, skammt frá Núpi, þar sem Árni var tvö ár í skóla sem unglingur.

Meðal þess sem þau skoðuðu var Skrúður, fyrsti skrúðgarðurinn á Íslandi, en svo skemmtilega vill til að gamall kennari Árna, Þorsteinn Gauti Gunnarsson, kallaður Þorsteinn bjútí, kom með fyrstu blómin þangað. „Þorsteinn er mjög eftirminnilegur kennari; mikið stærðfræðiséní og gaf út bækur um það efni.“

Glatt á hjalla á Hesteyri. Hrólfur Vagnsson þenur nikkuna í …
Glatt á hjalla á Hesteyri. Hrólfur Vagnsson þenur nikkuna í kaffi eftir leiðsögn um þorpið. Árni Sæberg


Þau vörðu dágóðum tíma á Ísafirði og ber Árni lof á bæinn; stemningin sé þægileg og góð og margt að sjá og gera.

Þegar þau voru að spóka sig á bryggjunni á Ísafirði rákust Árni og Katherine á konu sem var að selja dagsferðir inn á Hesteyri. „Það var svo sem ekkert í planinu hjá okkur en fyrst það bauðst fannst okkur upplagt að sigla þangað og sjáum ekki eftir því. Það er mjög fallegt á Hesteyri og gaman að skoða gamla læknisbústaðinn sem gerður var frægur í kvikmynd Óskars Þórs Axelssonar eftir sögu Yrsu Sigurðardóttur, Ég man þig. Katherine varð að vísu ekki um sel eftir að ég sýndi henni stikluna sem gerð var fyrir myndina enda er Ég man þig draugasaga.“

Hann glottir.

Allt fór þó vel og Árni og Katherine komust heilu og höldnu aftur til Ísafjarðar, drauglaus og reynslunni ríkari.

Fleiri myndir úr ferðinni má sjá í Sunnudagsblaðið Morgunblaðsins. 

Eyðibýlið Arnarnes í Dýrafirði.
Eyðibýlið Arnarnes í Dýrafirði. Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka