Nýjar sóttvarnareglur taka gildi á morgun, mánudaginn 7. september. Nálægðarreglu verður breytt úr tveimur metrum í einn og hámarksfjöldi þeirra sem mega koma saman fer úr 100 manns í 200.
Þetta kemur fram í reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem gefin var út 3. september. Eru breytingarnar í samræmi við tillögur sem fram komu í minnisblaði sóttvarnalæknis 2. september.
Hámarksfjöldi á sund- og baðstöðum og líkamsræktarstöðvum fer úr helmingi af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi í 75%.
Þá geta íþróttir, sviðslistir og önnur menningarstarfsemi farið fram og eru snertingar þar heimilar. Áhorfendur þurfa að fara eftir eins metra nálægðarreglu og fjöldatakmörkunum.
Afgreiðslutími vínveitingastaða breytist ekkert, og verður áfram takmarkaður við 23.00.