„Enn að upplifa þreytuköst“

„Ég er ekki að glíma við alvarleg eftirköst en það …
„Ég er ekki að glíma við alvarleg eftirköst en það er leiðinlegt að hafa ekki fulla orku. Maður spyr sig hvort um gæti verið að ræða varanleg áhrif,“ segir Gísli Halldór, bæjarstjóri Árborgar. mbl.is/Ásdís

„Ég var í einangrun í 39 daga í mars og apríl,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar.

„Ég var svo lengi að útskrifast af því ég var svo lengi með þurran hósta. Ég smitaðist 13. mars og veiktist kvöldið eftir. Við vorum búnir að vera hér tveir á skrifstofunni og vorum einmitt að ljúka við að skipuleggja allt varðandi Covid; að setja upp viðbragðsteymi og fleira. Ég smitaðist af honum, en við áttum hér saman einn tíu, fimmtán mínútna fund en þá var hann ekki kominn með nein einkenni. Ég virðist hafa smitast af andardrætti í rýminu,“ segir hann og segir þá hafa passað vel fjarlægð og ekki snert sömu fleti.

Alveg eins og tuska

„Hann fékk einkenni um kvöldið en ég daginn eftir. Ég hélt að þetta væri allt annað; jafnvel leifar af inflúensu. En hann smitaðist af konu sinni sem smitaðist af kennara í FSU. Strax í annarri viku voru um fimmtán manns smitaðir í Árborg en það endaði í 21 smiti og dreifðist svo ekki meir,“ segir hann.

„Fyrstu einkenni mín voru sviði í augum, sem hélst út allan tímann, og léttur hósti. Léttur sviði í lungum, eins og maður væri að anda að sér leysiefni. Svo fékk ég smá hita og var með hann í tvær vikur. Ég vann mikið þessa fyrstu viku, að heiman, því við vorum að klára að koma þessu öllu í kring að innleiða samkomubann. Seinni vikuna dró af mér og var ég alveg eins og tuska,“ segir Gísli og segir að þá hafi tekið við nokkrar vikur þar sem hann var aldrei alveg góður. Hann byrjaði svo eftir útskrift að byggja sig upp með göngum og hlaupatúrum.

Hélt ég væri laus

Vel gekk að byggja upp þol fyrstu þrjár vikurnar.
„Svo eftir þrjár vikur kemur þessi rosalega þreyta,“ segir Gísli og útskýrir að eftir frábæran hlaupadag í góðu formi hafi næstu dagar á eftir verið erfiðir.

„Ég fór varlega í að byggja mig upp og þessi þreytuköst urðu færri og styttri; allt niður í klukkutímalöng,“ segir Gísli og nefnir að hann hafi upplifað þreytuköst í allt sumar.
„Ég fór í tjaldútilegu í sumar og fékk þá þreytukast og var þreyttur í þrjá daga eftir hlaup. Það var mikið svekkelsi því ég hélt ég væri laus við þetta,“ segir hann og nefnir að þá hafi ekki verið annar kostur en að sætta sig við stöðuna. Annað einkenni sem hann finnur fyrir eru svefntruflanir.

Varanleg áhrif?

„Ég er ekki að glíma við alvarleg eftirköst en það er leiðinlegt að hafa ekki fulla orku. Maður spyr sig hvort um gæti verið að ræða varanleg áhrif. Það er verið að tala um svona eftirköst vírusa. Á meðan menn vita ekki hver endirinn er á þessu verður fólk að sýna enn meiri aðgát til að smitast ekki. Það er alveg óhætt að mæla gegn því að fá þetta.“

Lengra viðtal við Gísla má finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina ásamt viðtali við Má Kristjánsson, yfirlækni smitsjúkdómalækninga.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert