Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar hefur ekki áhyggjur að þeirri fækkun íbúa í bænum, sem og á Vestfjörðum öllum, sem mbl.is greindi frá í morgun.
„Þetta er ekki sú tilfinning sem við höfum fyrir íbúaþróuninni hérna,“ segir Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, í samtali við mbl.is.
„Við sjáum á fasteignamarkaðinum að það virðist vera farið að bera á skorti á íbúðarhúsnæði hérna. Fasteignaverð hefur verið að hækka. Það er ekki mikið framboð á eignum til sölu og það sem hefur komið á sölu hefur verið selt frekar hratt,“ segir Birgir.
Birgir telur að um sé að ræða eðlilega sveiflu á íbúafjölda, sem mögulega gæti skekkst með innkomu gamalla skráninga. Þá telur hann að íbúatölur muni jafnast út yfir árið.
„Það eru alltaf einhverjar dægursveiflur í þessu,“ segir Birgir.