Veðurstofan spáir suðaustan 10 til 18 metrum á sekúndu í dag. Hvassast verður í vindstrengjum norðvestantil og rigning en þurrt um landið norðaustanvert þar til síðdegis.
Talsverð úrkoma verður sunnan- og vestanlands seinnipartinn. Vestlægari og úrkomuminna í kvöld. Hiti verður á bilinu 8 til 16 stig að deginum, hlýjast norðaustan- og austanlands.
Vestan 15-23 m/s verða um austanvert landið í nótt og á morgun, en heldur hægari vestantil á landinu. Rigning norðanlands og skúrir syðra, en þurrt fyrir austan. Kólnar heldur.
Í athugasemdum veðurfræðings kemur fram að hvöss sunnanátt verði í vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi fram á hádegi og einnig verði vestan hvassvirði eða stormur austantil á landinu í nótt og á morgun. Það getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi.
Spáð er talsverðri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu síðdegis. Fólk er því hvatt til að hreinsa vel niðurföll og ræsi þannig að regnvatn eigi greiða leið burt.