Landssamtökin Þroskahjálp kalla eftir því að sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks geri athugun á öllum sem dvöldu í skammtímavistun fyrir fatlaða á Holtavegi á starfstíma karlmanns sem braut þar kynferðislega á konu, í þeim tilgangi að ganga úr skugga um að maðurinn hafi ekki framið fleiri brot.
Þetta sagði Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, í kvöldfréttum RÚV.
Eins og fjölmiðlar hafa áður greint frá var karlmaður á fimmtugsaldri nýverið dæmdur fyrir að brjóta kynferðislega á konu í starfi sínu á skammtímavistun á Holtavegi, úrræði fyrir fatlaða á vegum Reykjavíkurborgar. Í kjölfar málsins hefur velferðarsvið borgarinnar breytt verkferlum og verður meðal annars reynt að ganga úr skugga um að tvímennt sé á öllum vöktum í framhaldinu.
Bryndís sagði að Þroskahjálp hefði árum saman kallað eftir þeirri breytingu.
„Ég hefði haldið að þegar starfsmaður í svona þjónustu verður uppvís að svona alvarlegu broti, ofbeldisbroti, hvers kyns sem það kann að vera, þá tel ég eðlilegt að það sé kannað hjá öllum sem hafa verið í þjónustu á þeim tíma sem viðkomandi starfar á staðnum. Því menn verða ekki ofbeldismenn bara svona einn daginn milli hálffjögur og fjögur, á vaktaskiptum,“ sagði Bryndís.