Sprengjusérfræðingar á vegum Atlantshafsbandalagsins (NATO) æfa nú viðbrögð við hryðjuverkum á Keflavíkurflugvelli á árlegu æfingunni Northern Challenge. Hófst æfingin nú í tuttugasta sinn um helgina og stendur yfir fram í næstu viku, af því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Á æfingunni verður sérstök áhersla lögð á verndun lífs, eigna og sönnunargagna í kjölfar hryðjuverkaárása og verður sams konar búnaður og fundist hefur víða um heim útbúinn og aðstæður hafðar eins raunverulegar og kostur er.
Þátttakendur á æfingunni eru 75 manns frá sjö þjóðum, sem allir munu gangast undir skimun, bæði við komu og síðan 5 til 6 dögum síðar. Þátttakendur eru í einangrun á öryggissvæðinu og er ekki heimilt að yfirgefa svæðið. Þá er svæðinu skipt í sóttvarnarhólf og þátttakendum skipt upp í hópa.
Æfingin veitir sprengjusérfræðingum, sem koma hvaðanæða úr heiminum, tækifæri til að samhæfa aðgerðir og miðla reynslu og þekkingu til annarra liða, og hefur jafnframt skipað sér sess sem ein mikilvægasta æfing sprengjusérfræðinga í Evrópu.