Allt virðist í hnút í kjaradeilu milli Norðuráls á Grundartanga og Verkalýðsfélags Akraness og lítið þokar í viðræðum.
Vilhjálmur Birgisson, formaður félagsins, er ómyrkur í máli í Morgunblaðinu í dag og segir „það munu aldrei gerast“ að félagsmenn samþykki lakari kjarabætur en þær sem lífskjarasamningurinn gerir ráð fyrir.
Samningar hafa verið lausir í níu mánuði og vinnustöðvun hefur verið boðuð frá 1. desember nk. Í samtali við blaðið segir Vilhjálmur að ágreiningurinn snúist um þá skoðun viðsemjanda að í núverandi kröfum megi finna kjaratengda liði sem hækki laun starfsmanna umfram það sem almennt hafi verið samið um, en því hafnar Vilhjálmur með öllu. Þvert á móti fullyrðir hann að tilboð verkalýðsfélagsins sé í einu og öllu sniðið að lífskjarasamningnum sem Samtök atvinnulífsins hafi tekið þátt í að móta og samþykkja.