Fangelsinu á Akureyri verður lokað 15. september næstkomandi. Lokun fangelsisins var frestað í júlí vegna mikillar gagnrýni á ákvörðunina.
Til stóð að fangelsinu yrði lokað um mánaðamót júlí og ágúst. Í júlí óskaði dómsmálaráðherra síðan eftir því við ríkislögreglustjóra að lagt yrði mat á hugsanlegan viðbótarkostnað lögreglunnar á Akureyri af lokuninni. Var lokun fangelsisins því frestað til 15. september.
Fram kemur í frétt RÚV að von sé á tilkynningu frá dómsmálaráðherra síðar í dag, en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra var ekki laus til viðtals við vinnslu fréttarinnar.