Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verður nú með sýnatöku vegna einkenna innandyra en ekki inn um bílglugga í sýnatökutjaldi líkt og tíðkast hefur fyrir utan gamla Orkuhúsið við Suðurlandsbraut. Rúv greindi fyrst frá.
„Við héldum í fyrstu að það yrði erfiðara að skima í húsi en nú þegar veðrið er orðið rysjótt þá er praktískara fyrir okkar fólk að þetta sé gert í húsi,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar.
Gangaverðir verða á svæðinu og vísa fólki veginn þegar gengið er til sýnatöku, að sögn Óskars. Gengið sé úr skugga um að sóttvarnaráðstöfunum sé fylgt og því felist engin áhætta í því að ganga inn í sýnatöku.
Sýnatakan er tvíþætt – annars vegar er sýnataka sem er á landamærunum og síðan seinni skimun og hins vegar þeir sem koma í skimun vegna einkenna.
„Af þessum nokkur hundruð einkennasýnum sem við tökum á dag eru mjög fáir sem greinast með kórónuveiruna. Ef fólk er mjög veikt reynum við að gera þetta með öðrum hætti en í flestum tilfellum kemur fólk sem er með mjög lítil einkenni. Það er því engin áhætta í þessu fólgin fyrir fólkið,“ segir Óskar.