Stuðningur sem Icelandair fékk greiddan úr ríkissjóði vegna hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti nam tæpum 2,9 milljörðum króna í maí, júní og júlí í sumar. Stuðningurinn var vegna 1.889 launamanna hjá fyrirtækinu.
Listi yfir þá rekstraraðila sem fengið hafa greiddan stuðning vegna hluta launakostnaðar hefur verið birtur á vef Skattsins. Icelandair ber höfuð og herðar yfir önnur fyrirtæki á listanum. Icelandair þáði ríflega sexfalt hærri upphæð en næsta fyrirtæki, Flugleiðahótel hf., sem fengu 452 milljónir króna vegna 480 starfsmanna. Þar á eftir koma Íslandshótel með 436 milljónir fyrir 467 starfsmenn og Bláa lónið með 425 milljónir króna vegna 540 starfsmanna.
Hótel og önnur ferðaþjónustufyrirtæki eru vitaskuld mest áberandi á lista yfir fyrirtæki sem fengu stuðning. Af öðrum fyrirtækjum ofarlega á listanum má nefna Centerhotels, Allrahanda, Fosshótel, Hótel Sögu, Iceland Travel, Flugfélag Íslands, Rammagerðina og tvö félög Kynnisferða.
Af öðrum fyrirtækjum má geta þess að Sena fékk 23 milljónir króna, Sportköfunarskóli Íslands fékk 27 milljónir, Geysir shops 19 milljónir, Landnámssetur Íslands 18 milljónir, Kex Hostel 16 milljónir, Íshestar 13 milljónir og Tix miðasala 4,6 milljónir.