„Kerfisbundið ofbeldi“ gegn hælisleitendum

Fyrirhugað er að senda þau Abdalla, níu ára, Mustafa, tveggja …
Fyrirhugað er að senda þau Abdalla, níu ára, Mustafa, tveggja ára, Hamza, fimm ára og Rewida, tólf ára, úr landi þann 16. september næstkomandi. Ljósmynd/Sema Erla Serdar

Til stendur að senda Dooa Eldeib og Ibrahim Khedr og börn þeirra fjögur úr landi 16. september næstkomandi en umsókn þeirra um hæli hér á landi var hafnað af kærunefnd útlendingamála.

Þau sóttu um alþjóðlega vernd við komuna til landsins 7. ágúst 2018 þar sem fjölskyldufaðirinn var ofsóttur vegna stjórnmálaþátttöku sinnar í Egyptalandi og telja þau lífi fjölskyldunnar ógnað verði þau send aftur þangað. Lögmaður fjölskyldunnar segir meðferð stjórnvalda ómannúðlega og ólöglega.

„Málsmeðferðin hefur tekið ákaflega langan tíma en í dag eru liðin nákvæmlega tvö ár og einn mánuður frá því að fjölskyldan sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Börnin hafa aðlagast einkar vel og þrjú eldri börnin tala íslensku reiprennandi. Allt í einu stendur til að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja úr landi nauðug 16. september næstkomandi,“ segir Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, í samtali við mbl.is en fyrst var greint frá fyrirhugaðri brottvísun í kvöldfréttum Stöðvar 2. 

Stjórnvöld vannýti heimildir sínar

Stjórnvöld hafa heimild til þess að veita fólki hæli á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef ferli þeirra tekur meira en 18 mánuði í úrvinnslu. Fyrir barnafjölskyldur er viðmiðið 16 mánuðir. Hins vegar segir Magnús að ekki sé tekið tillit til alls ferlisins þegar þetta er ákvarðað. Fólk sé látið bíða í marga mánuði eftir að úrskurður liggi fyrir og þar til því sé vísað úr landi.

„Málsmeðferðin hefur tekið ákaflega langan tíma en í dag eru liðin nákvæmlega tvö ár og einn mánuður frá því að fjölskyldan sótti um alþjóðlega vernd hér á landi. Börnin hafa aðlagast einkar vel og þrjú eldri börnin tala íslensku reiprennandi. Allt að einu stendur til að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja úr landi nauðug 16. september næstkomandi.  

Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli setja barnafjölskyldu á flótta í þessa stöðu, þ.e. að dvelja hér í langan tíma og aðlagast til þess eins að vísa úr landi þegar aðlögun hefur átt sér stað. Börnin fjögur líta á Ísland sem sitt heimaland og upplifa hér öryggi sem þau hafa ekki notið áður.“

Ólöglegt, ósiðlegt og ómannúðlegt

Magnús segir með ólíkindum að hér á landi sé til heildstætt kerfi stofnana sem vinni með þeim hætti að láta fólk aðlagast svo mánuðum skipti bara til þess eins að senda fólk úr landi þegar aðlögun hefur átt sér stað.

„Góðu heilli hefur alloft tekist að hindra brottvísun á lokametrunum og er það von mín og trú að það takist einnig í þessu máli. En að stjórnvöld skuli setja barnafjölskyldur í þessa stöðu ítrekað er í senn óforsvaranlegt, í andstöðu við lög, siðferðilega rangt og ákaflega ómannúðlegt.“

Kerfisbundið ofbeldi

„Þegar ég tók að mér fyrstu málin af þessu tagi fyrir nokkrum árum stóð ég í þeirri trú að þetta hlytu að vera undantekningar hjá stjórnvöldum að koma fram með þessum hætti og breyting myndi verða til batnaðar.

Áframhaldandi fjöldi mála af þessu tagi, þar sem börnum er leyft að aðlagast til þess eins að senda nauðug úr landi, er hins vegar slíkur að ekki er hægt að líta öðruvísi á en um sé að ræða kerfisbundið ofbeldi af hálfu íslenskra yfirvalda gegn barnafjölskyldum á flótta,“ segir Magnús.

Málinu ekki lokið

Fyrir liggja tvær endurupptökubeiðnir hjá kærunefnd útlendingamála og ein krafa um frestun réttaráhrifa og til viðbótar liggur fyrir krafa um frestun réttaráhrifa hjá Útlendingastofnun. Magnús segir boltann hjá stjórnvöldum.

„Það er von mín að stjórnvöld samþykki annaðhvort endurupptöku eða frestun réttaráhrifa og komi þannig í veg fyrir að fjölskyldan verði flutt úr land 16. september næstkomandi. Boltinn er núna hjá stjórnvöldum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka