Lagabreytingin sem leggur niður læknaráð er bæði ótrúleg og óskiljanleg segir starfandi formaður læknaráðs Landspítala, Anna Margrét Halldórsdóttir. Frumvarp heilbrigðisráðherra var samþykkt á Alþingi í júní þar sem kom fram að lækna- og hjúkrunarráð á heilbrigðisstofnunum yrðu lögð niður.
Þeirra í stað átti að koma sameiginlegt ráð fagstétta heilbrigðisstarfsfólks á hverri stofnun, forstjóra til ráðgjafar. Óljóst er hvernig staðið verður að því á Landspítala.
„Læknar eru bæði vonsviknir og slegnir yfir þessari atburðarás,“ segir Anna Margrét Halldórsdóttir, starfandi formaður læknaráðs, í samtali við Læknablaðið, um þá breytingu sem varð á heilbrigðislögum í sumar sem leggur læknaráð heilbrigðisstofnana niður.
Anna Margrét segist óneitanlega fá það á tilfinninguna að lagabreytingin sé liður í því að þagga niður í læknum.
„Það eru engin sannfærandi rök fyrir þessum breytingum og beinlínis búið að segja við lækna að þeir hafi verið með óþægilega gagnrýni. Okkur líður því mörgum eins og verið sé að þagga niður í læknum,“ segir Anna Margrét.