Þingfundir á 150. löggjafarþingi voru samtals 141 og stóðu í tæpar 715 klukkustundir. Lengsti þingfundurinn stóð í sextán klukkustundir og sjö mínútur. Þetta kemur fram í yfirliti um þingstörf á 150. lögggjafarþingi en þingfundum þess var frestað á föstudaginn. Þingið var að störfum frá 10. september til 17. desember 2019, frá 20. janúar til 29. júní 2019 og frá 27. ágúst til 4. september 2020.
Meðallengd þingfunda á umræddu löggjafarþingi var fimm klukkustundir og fjórar mínútur. Það er talsvert styttra en á 149. lögggjafarþingi þegar meðallengdin var sex klukkustundir og 39 mínútur.
Í yfirlitinu kemur fram að af 253 frumvörpum urðu alls 138 að lögum, 120 voru óútrædd, tveimur var vísað til ríkisstjórnarinnar og tvö ekki samþykkt. Af 161 þingsályktunartillögu voru 46 samþykktar, 112 tillögur voru óútræddar, ein var kölluð aftur, ein ekki samþykkt og einni var vísað til ríkisstjórnarinnar.
Þá voru 35 skriflegar skýrslur lagðar fram. Fyrirspurnir á þingskjölum voru samtals 514. Fyrirspurnir til munnlegs svars voru 63 og var 52 svarað en ein var kölluð aftur. 480 skriflegar fyrirspurnir voru lagðar fram og var 425 þeirra svarað, 55 bíða svars er þingi var frestað, segir í yfirlitinu.
Þingmál til meðferðar í þinginu voru 1005 og tala prentaðra þingskjala var 2118. Óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra voru 327. Sérstakar umræður voru 27.