Formaður Félags eldri borgara segir máltíð sem eldri borgara í þjónustuíbúð á vegum Reykjavíkurborgar var borin á borð óboðlega. Hún mun taka málið upp á fundi öldungaráðs borgarinnar.
Elín Guðrún Jóhannsdóttir birti í færslu sinni á Facebook í dag ljósmyndir af máltíð sem móður hennar var gefin. „Þetta er hádegismatur mömmu fyrir eldriborgara í dag í boði borgarinnar, kaldur plokkfiskur frá því í gær inni í brauðhleif. Væri gaman að sjá þetta borið fram á Alþingi,“ skrifar Elín í færslunni.
Ingibjörg Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, segir máltíðina ekki boðlega í samtali við mbl.is.
„Mér finnst þetta bara ekki boðlegt. Mér skilst að þetta sé í þjónustuíbúð á vegum borgarinnar,“ segir Ingibjörg sem tjáði sig um málið á Facebook.
Ingibjörg segist ekki vita til þess að almennrar óánægju gæti meðal eldri borgara vegna máltíða á vegum borgarinnar.
Hún segir að til standi að ræða máltíðir eldri borgara á fundi öldungaráðs Reykjavíkurborgar. „Mér finnst þetta bara skelfing,“ segir Ingibjörg.
Þetta er hádegismatur mömmu fyrir eldriborgara í dag í boði borgarinnar, kaldur plokkfiskur frá því í gær inní brauðhleif🤮væri gaman að sjá þetta borið fram á Alþingi
Posted by Elín Guðrún Jóhannsdóttir on Mánudagur, 7. september 2020